Prjónakaffi ... á veraldarvefnum!

Árum saman hefur Heimilisiðnaðarfélagið staðið fyrir prjónakaffi fyrsta fimmtudagskvöld í mánuði. Nú þegar samkomutakmarkanir setja hefðbundnu prjónakaffi skorður verður gripið til þess góða ráðs að streyma á netinu (facebook-live) í beinni útsendingu áhugaverðu efni. Þetta form af samveru hefur þann góða kost að allir geta „mætt“ sama hvar þeir eru á landinu eða í heiminum staddir.

Skotthúfa frú Auðar

Auður Sveinsdóttir húsfreyja á Gljúfrasteini var annáluð hannyrðakona. Auður var listfeng og handlagin og eftir hana liggja fjölmörg einstök textílverk og handavinna. Hún lét einnig til sín taka í skrifum um handverk og hannyrðir og samdi prjónauppskriftir. Auður tengist Heimilisiðnaðarfélaginu sterkum böndum en hún starfaði í ritnefnd ársritsins Hugur og hönd á árunum 1971-1984. Árið 1970 hlaut Auður viðurkenningu í samkeppni Álfoss fyrir fallega skotthúfu úr þreföldum plötulopa. Uppskriftin hefur nú verið endurgerð fyrir léttlopa.

4. febrúar - Streymi á netinu kl. 20

Skotthúfa frú Auðar (I) er prjónuð í samprjóni og þetta fyrra kvöld er uppskriftin birt svo þeir vilja geta dregið fram prjónana. Þetta kvöld verður fróðleikur um húfuna og sagt frá því hvernig hún var upphaflega í höndum frú Auðar. Greint er frá þeim breytingum sem voru gerðar á uppskriftinni en hún er nú úr léttlopa í stað þrefalds plötulopa, húfan er sýnd á nokkrum mismunandi stigum svo og hvernig hún lítur út fullprjónuð.

4. mars - Streymi á netinu kl. 20

Skotthúfa frú Auðar (II) er fullbúin þetta seinna skotthúfukvöld. Farið er í frágang á húfunni, kennt hvernig gera á skúf og mismunandi gerðir af skúfhólkum kynntar. Kennt er að setja saman húfu og skúf en samskeytin eru hulinn með hólknum. Ýmsir fróðleiksmolar um frú Auði og skotthúfur fá að fljóta með.

Umsjón: Guðný María Höskuldsdóttir & Þórdís Halla Sigmarsdóttir

Samstarfsaðili: Gljúfrasteinn – hús skáldsins

 

Saumaklúbbur Karólínu

Á vormánuðum verður opnuð sýning á verkum Karólínu Guðmundsdóttur vefara í Kornhlöðuhúsinu á Árbæjarsafni. Karólína lærði ung vefnað í Kaupmannahöfn og rak um áratugaskeið Vefnaðarstofu við Ásvallagötu í Reykjavík. Þar var meðal annars um áratugaskeið framleiddur ofinn ullarjafi í ýmsum litum til útsaums. Karólína seldi einnig útsaumspakkningar sem samanstóðu af jafa, munstri með skýringum og útsaumsgarni. Útsaumspakkningar Karólínu nutu mikilla vinsælda, veggteppi og púðar ættaðir frá henni prýddu mörg íslensk heimili.

Í tilefni af sýningunni um Karólínu hefur verið valin fjöldi munstra frá Karólínu og þau sett í útsaumspakkningar. Verkefnið er samstarf HFÍ og Árbæjarsafns en Lára Magnea Jónsdóttir textílhönnuður hefur valið falleg munstur og endurhannað þau í takt við tímann. Þátttakendur geta keypt útsaumspakkningarnar í verslun HFÍ og vefverslun HFÍ fyrir saumaklúbbskvöldin.

8. apríl - Streymi á netinu kl. 20

Saumaklúbbur Karólínu (I) snýst um útsaum á munstrum frá Karólínu Guðmundsdóttur. Þetta fyrra kvöld verður forsaga sýningarinnar á Árbæjarsafni rakin og sagt frá verkefninu við að endurvekja munstur Karólínu. Sýndar verða þær fjölbreyttu og fallegu pakkningar sem á boðstólum eru. Hvar á að byrja? Hvernig er best að fara að? Auk þess sem ýmis góð ráð við útsauminn fá að fljóta með.

6. maí - Streymi á netinu kl. 20

Saumaklúbbur Karólínu (II) hefur nú saumað út af miklum móð. Þetta seinna kvöld verður farið í frágang og þá fjölbreyttu möguleika sem felast í framsetningu á útsaumi Karólínu. Sýndar verða óviðjafnanleg sýnishorn af tilbúnum verkum sem hafa verið frágengin á smekklegan og listfenginn hátt. Aldrei að vita nema að nokkrar vel valdar sögur af Karólínu (frá þeim sem þekktu hana!) fái að fljóta með.

Umsjón: Lára Magnea Jónsdóttir & Margrét Valdimarsdóttir

Samstarfsaðili: Borgarsögusafn - Árbæjarsafn