Kyrtill

KyrtillSigurður Guðmundsson, málari, vildi að konur tækju upp þjóðlega sparibúninga og hannaði í þeim tilgangi skautbúning og síðan kyrtil árið 1870. Kyrtillinn var talsvert notaður við fermingar og brúðkaup í kringum aldamótin 1900. Kyrtillinn var léttur og einfaldur í sniði, úr silki, satíni eða þunnu bómullar- eða ullarefni, stöku sinnum úr flaueli. Sigurður vildi að kyrtillinn væri hvítur en fljótlega saumuðu konur dekkri kyrtla, bláa, græna eða svarta. Kyrtillinn var rykktur undir berustykki að framan og aftan, hálsmál var ferkantað og opið að framan og ermar hálfsíðar og víðar. Blúnda var í hálsmáli og fremst á ermum. Útsaumur eða leggingar voru á berustykki, framan á ermum og neðan á pilsi og teiknaði Sigurður sérstök munstur fyrir kyrtilinn. Höfuðbúnaður var sá sami og við skautbúning, faldur, faldblæja og faldhnútur. Koffur úr gylltu silfri var borið við faldinn, silfurnæla var við hálsmál og stokkabelti tók kyrtilinn saman í mitti. Við ljósa kyrtla voru notaðir ljósir sokkar og skór en svartir við aðra.

Kyrtill   Kyrtill   Kyrtill   Kyrtill

Kyrtill   Kyrtill   Kyrtill