Fróðleikur

Búningar á 15. – 18. öld

Búningar á 15. - 18. öld

Á spássíum íslenskra handrita frá 15. öld má sjá teikningar af konum sem eru í einhvers konar faldbúningi, með hvítan fald á höfði, í þröngri, ermalangri treyju og felldu víðu pilsi. Allt eru þetta búningshlutar sem konur klæddust að minnsta kosti frá þessum tíma og næstu 300-400 árin. Frá 16. og 17. öld eru líka til teikningar af konum með fald eða vaf um höfuðið og húfur eða hatta yfir þeim, með pípukraga um háls, í lituðum búningum og með handlínur og skraut og sumar í hempum yst fata. Meira er vitað um búninga frá 18. öld en þá sem eldri eru. Bæði eru til lýsingar og teikningar landkönnuða, búningshlutar hafa varðveist og jafnvel heilu búningarnir frá síðasta hluta aldarinnar. Margir búningar voru íburðarmiklir, úr litskrúðugu klæði, útsaumaðir, skreyttir innfluttum, skrautlegum silkiklútum og hlaðnir ættarsilfri sem gengið hafið konu fram af konu. Efnið var ekki sparað, pilsin voru vel víð og svuntan laus. Á höfði var vafinn krókfaldur en líklega líka skotthúfa hversdags og heimavið.

Íslendingar áttu erfiða daga á 18. öld. Farsóttir í fólki og fé, einokunarverslun í algleymingi, Skaftáreldar, móðuharðindi og jarðskjálftar. Bústofn og fólk hrundi niður. Ekki er að undra að föt fólks hafi tekið breytingum, þau hafi orðið einfaldari og ódýrari og skiljanlegt að erfðagóssið hafi verið brætt upp og heilu búningarnir seldir úr landi. Prjónuð föt urðu algengari en áður en í prjónaða flík fer minna band en í sambærilega flík sem saumuð er úr ofnu klæði.

Búningar á 19. öld

Búningar á 19. öldÍ upphafi 19. aldar var faldbúningurinn enn almennur en hafði breyst. Hann var dökkur og pilsið samfella sem sparaði klæði sem annars hefði farið í lausa svuntu. Á höfði hafði krókfaldur þróast í  spaðafald eða að notuð var skotthúfa. Um miðja öldina var faldbúningurinn orðinn fátíður og á seinni hluta aldarinnar varð skautbúningur Sigurðar Guðmundssonar sparibúningur í stað faldbúningsins ef konur létu sér þá ekki nægja peysuföt eða einhvern allt annan og nútímalegri klæðnað.

Upphlutsbolurinn var hluti af faldbúningnum. Hann gat verið fastur við eitt undirpilsið en þau voru oft mörg. Kona við vinnu fór gjarnan úr treyju og faldbúningspilsi, ekki síst ef heitt var eða hún vildi hlífa útsaumuðu pilsi og treyju. Þá var hún í upphlutnum einum og undirpilsi. Ef hún vildi verja pilsið fyrir óhreinindum setti hún á sig einfalda svuntu sem fór yfir pilsið að framan og á mjöðmum. Þá var í raun kominn sá búningur sem kallaður er upphlutur. Á 19. öld var ekki litið á hann sem sérstakan búning heldur nærklæði eða vinnuföt.

Á seinni hluta 18. aldar voru konur ekki aðeins farnar að nota meira en áður prjónaðar skotthúfur heldur líka einfaldar prjónaðar peysur í stað skreyttu vaðmálstreyjunnar. Þá var stutt í að upphlutnum væri alveg sleppt og peysan lengd svo að festa mætti pilsið við hana. Þarna var þá kominn húfu- og peysubúningur sem nú kallast peysuföt. Faldbúningurinn varð sífellt sjaldgæfari en peysuföt tóku við sem sparibúningur. Við peysuna voru konur í dökku pilsi og hlífðu því með breiðri dúksvuntu. 

Búningar á 20. öld

Búningar á 20. öldÁ fyrri hluta 20. aldar urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi. Þjóðin barðist fyrir sjálfstæði sínu og fékk það. Tækniframfarir leiddu til breyttra atvinnuhátta og byggðamunsturs og aukinna samskipta við útlönd.

Við konungskomuna 1907 var hannaður búningur á þær stúlkur sem þjónuðu í konungsveislum.  Þá var tekið mið að upphlutnum sem verið hafði hluti af klæðnaði íslenskra kvenna um aldir án þess þó að teljast sjálfstæður búningur. Búningur þjónustustúlknanna var svartur og skyrtur og svuntur hvítar. Hann vakti mikla athygli og varð til þess að fjöldi kvenna fór að koma sér upp sambærilegum búningum. Upphluturinn varð sjálfstæður búningur. Á tímabili voru notuð alls kyns litskrúðug gerviefni í skyrtur og svuntur en á síðustu áratugum aldarinnar fóru konur aftur að nota hvítar skyrtur og ullarefni í svuntur við 20. aldar upphlut. Peysuföt tóku líka breytingum hvað varðaði snið og efni og framan af öldinni héldu nokkrar konur í þau sem spariklæðnað. Skautbúningar og kyrtlar náðu hins vegar ekki að verða almenningseign.

Upp úr miðri öldinni vaknaði áhugi fólks á búningum fyrri alda. Þar fór fremst í flokki fólk í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sem kom sér upp slíkum búningum með aðstoð Þjóðminjasafns og Elsu E. Guðjónsson. Félagar saumuðu sér búninga með 19. aldar upphluti, faldbúninga og gamla karlabúninga sem fyrirmyndir. Undir lok aldarinnar lagðist hópur innan Heimilisiðnaðarfélags Íslands líka í rannsóknar- og þróunarvinnu til að hægt væri að bjóða upp á námskeið í gerð búninga í samræmi við klæðnað fyrri alda.