Klútar

HandlínaHandlína

Klútur, oftast hvítur, sem hékk við belti faldbúnings. Handlínur voru úr líni, oft með vönduðum útsaumi og líklega helst notaðar til að hylja vinnulúnar hendur t.d. í kirkju.

HálsklútarHálsklútar

Karlar og konur notuðu ferkantaða hálsklúta, helst úr silki þótt margir létu sér nægja ódýrara efni. Klútarnir voru oft einlitir, svartir eða dökkir, en klútar kvennanna þó oftast með marglitum bekk í kring, bekkjaklútar, og þær nældu þá við hálsmál skyrtu eða peysu.

HöfuðklúturHöfuðklútur

Á seinni hluta 18. aldar var farið að binda mislitan höfuðklút um krókfaldinn neðst. Þegar konur fóru að nota spaðafalda huldu þær faldfótinn og húfuna og hárið sem kom undan henni með klút. Klútarnir gátu verið úr lérefti en silkiklútar spari.

SlifsiSlifsi

Hluti peysufata. Langur borði, úr silki eða öðru fínu efni, sem er þræddur við hálsmál peysunnar. Fyrr á tímum var borinn hálsklútur við prjónaða peysu. Slifsið er oftast úr silki, um það bil 1,5 m langt en 18-20cm breitt, en þekkist lengra og breiðara, og á endunum getur verið misbreitt kögur. Slifsi eru í ýmsum litum og munstruð með ýmsum hætti, einnig eru þau til skreytt með vírbaldýringu, listsaumi og með máluðu munstri. Til skrauts er brjóstnælu nælt í slifsið.