Jólalausavasi - leiðbeiningar

Jólavasi - leiðbeiningar um samsetningu 

Myndleiðbeiningar má finn neðst á síðunni 

Hver pakki af litlum jólalausavasa samanstendur af ullarefni með áprentuðu munstri, léreftsfóðri, baki úr grófu bómullarefni, ullarbryddingum, útsaumsbandi og nál. Annað sem þarf eru góð skæri, tvinni, þræðigarn og fatakrít. Ef fóðra á vasann að innanverðu er notað þunnt bómullarefni með fallegu munstri.

Áður en byrjað er á útsaumnum:

1. Leggið léreftið við bakhlið ullarefnissins 

2. Notið skapalónið til að draga upp útlínur vasans með fatakrít. Brjótið skapalónið í tvennt á langveginn, staðsetjið í miðju þannig að munstrið rúmist vel, eða gefa 2 cm bil frá munstri niður að brún. Munið að gera ráð fyrir bryddingunni. Saumið útlínur vasans með tvinna í björtum lit.

3. Gott er að þræða með þræðigarni í kringum munstrið til að tryggja það að efnin hagi sér sem eitt.

Munstrið er saumað með blómstursaum, leggsaum, fræhnútum eða öðrum útsaum. Hægt er að nota pallíettur og perlur í stað fræhnúta.

Þegar búið er að sauma út í munstrið er vasinn pressaður. Athugið: séu pallíettur notaðar er best að festa þær á eftir að búið er að pressa vasann.

 

Samsetning:

1)      Klippið útlínur vasans, þar á meðal klaufina. Varpið yfir brúnir með tvinna í sama lit og vasinn. Gætið þess að draga ekki efnið saman. Athugið: ef fóðra á vasann skal þræða þunnt bómullarefni við, ranga á móti röngu. Vaskinn er svo klipptur til ásamt fóðrinu og varpað yfir hvoru tveggja.

2)      Klaufin er brydduð fyrst. Leggið bryddinguna á réttuna, hafið ávallt augun á brún klaufarinnar. Saumið bryddinguna á með nokkuð þéttum aftursting. Athugið að það getur reynst vandasamt að sauma niður bryddinguna í kverkinni. Reynið að brjóta vasann saman á þann máta að hægt sé að sauma bryddinguna áfram flata við. Þegar búið er að sauma bryddinguna við á hún að standa upprétt í kverkinni.

3)      Leggið bryddinguna niður með á röngunni.

4)      Takið fram bakið á vasanum. Dragið upp útlínur vasans með skapalóninu, notið fatakrít. Merkið ekki fyrir klauf. Klippið út bakið. Ef fóðra á vasann skal einnig sníða fóðrið og leggja við bakið.

5)      Þræðið saman framhlið og bakhlið, varpið yfir brúnir allan hringinn.

6)      Bryddið vasann að ofan og leggið bryddingu niður með á baki. Ekki þarf að ganga frá bryddingunni, klippið aðeins umfram bryddingu við brún vasans.

7)      Að lokum skal brydda hliðarnar. Ákveðið hversu langt haldið á að vera á vasanum, bryddið svo hliðarnar og klippið umfram bryddingu frá (munið að skilja nógu mikla bryddingu eftir fyrir haldið). Leggið bryddinguna niður á bakinu og saumið, haldið áfram  upp haldið (brjótið bryddinguna saman)

 Myndleiðbeiningar