Til minningar um Indu Dan Benjamínsdóttur

Fjöldi þjóðbúningaunnenda var samankominn á Skotthúfunni í Stykkishólmi þegar fréttir bárust af því að Inda væri farin. Margir höfðu orð á því að hún væri hér með okkur í anda og þegar litið var yfir hópinn mátti sjá að það var sannarlega rétt. Víða mátti sjá handbragð hennar, annaðhvort á balderingu sem hún hafði unnið sjálf eða á verkum nemenda sem hún hafði haft undir sinni handleiðslu.

Inda kenndi balderingu, blómstursaum og flauelsskurð hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands um árabil, á námskeiðum bæði í Reykjavík og í Eyjafirði. Hún kom að endurreisn faldbúningsins ásamt hópi kvenna í Faldafeyki upp úr aldamótum og var ötull talsmaður íslenska þjóðbúningsins. Inda hafði einstakt auga fyrir litum og formum og gátu nemendur hennar alltaf treyst því að það sem hún lagði til yrði fallegt. Hún kenndi nemendum sínum að í upphafi skyldi endirinn skoða; það yrði að vanda vel til verka á öllum stigum svo að útkoman yrði glæsileg. 

Inda var nákvæm og vandvirk í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur og var hún því oft fengin til að baldera á upphluti, skautbúninga og faldbúninga. Hún var eins og sjálfur skaparinn; blómin spruttu fram undan fingrum hennar og í þeim mun Inda lifa áfram, sem og í hjörtum okkar sem þekktum hana. Við þökkum Indu fyrir vináttuna og einstakt starf í þágu þjóðbúninga og handverks. Fjölskyldu hennar færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. 

Fyrir hönd Heimilisiðnaðarfélags Íslands,

Kristín Vala Breiðfjörð, formaður og nemandi Indu.