Til minningar um Steinunni Jóhönnu Ásgeirsdóttur

Steinunn Jóhanna Ásgeirsdóttir var fædd í Reykjavík 4. ágúst 1951. Fyrstu ár ævinnar bjó hún á Óðinsgötu en flutti fimm ára gömul ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna þar sem hún bjó til ársins 1974. Þegar heim var komið hóf hún nám í íslensku við Háskóla Íslands og starfaði um tíma hjá Pósti og Síma og síðar sem tækniteiknari.

Steinunn var mikil áhugakona um íslenska þjóðbúninginn og handverksarf íslenskra kvenna. Hún gekk í Heimilisiðnaðarfélagið og sótti þar námskeið í baldýringu, knipli og þjóðbúningasaum. Áhugi hennar á handverki leiddi til þess að Steinunn hóf störf hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og starfaði hjá félaginu í um tíu ár, meðal annars sem skólastjóri Heimilisiðnaðarskólans. 

Steinunn skartaði sjálf 20. aldar upphlut þegar hún var á búningi en saumaði 19. aldar upphluti á dætur sínar og einnig þjóðbúninga á elstu barnabörnin. Steinunn var félagi í Faldafeyki; hópi kvenna sem vann að endurreisn faldbúningssins og á hún ófá spor í faldbúningi Heimilisiðnaðarfélagsins sem Faldafeykiskonur saumuðu. Steinunn var einnig nösk að viða að sér og deila með öðrum upplýsingum um handverksaðferðir og val á efnum sem hægt var að nota í búningagerð.

Síðar hóf Steinunn nám við þjóðfræði í Háskóla Íslands. Þar endurspeglaðist áhugi Steinunnar á textílsögu kvenna á Íslandi, en lokaritgerðin fjallaði um fataeign kvenna sem létust á árinu 1843 í Rangárvallasýslu. Því miður missti Steinunn heilsuna áður en ritgerðin var full unnin.

Við minnumst Steinunnar fyrir óþrjótandi áhuga hennar og ástríðu á íslensku handverki, með þakklæti í huga fyrir starf hennar í þágu Heimilisiðnaðarfélags Íslands.

 

Fyrir hönd Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 

Kristín Vala Breiðfjörð, formaður.