Fræðslu- og fundanefnd hefur fundað stíft undanfarið og kynnir nú með stollti vorferð Heimilisiðnaðarfélagsins 2025.
Við ætlum að heimsækja Vestmannaeyjar að þessu sinni! Ferðin er opin öllu félagsfólki Heimilisiðnaðarfélagsins og má hver og einn taka með sér einn gest.
Lagt verður af stað með rútu frá Heimilisiðnaðarfélaginu klukkan 08:00 laugardaginn 10. maí. Þaðan liggur leiðin niður að Landeyjarhöfn og siglt með Herjólfi klukkan 10:45. Við munum heimsækja Lista og menningarfélag Vestmannaeyja í Hvíta húsinu, Gallerí Skúrinn þar sem fjölbreytt handverk er til sýnis og sölu og Landakirkju þar sem boðið verður upp á leiðsögn um merka sögu kirkjunnar. Á Tanganum verður svo boðið upp á súpu- og salatbar áður en haldið er í rútuferð um eyjuna með skemmtilegri leiðsögn heimamanna. Við gerum ráð fyrir að mæta í Herjólf ekki seinna en 16:30 en ferjan leggur af stað klukkan 17:00.
Matur, rúta og leiðsögn kosta 10.500 krónur og munum við senda ferðalöngum kröfu í banka. Hver og einn borgar fyrir sig í Herjólf en almennt fargjald fram og tilbaka eru 5.000 krónur en 2.500 krónur fyrir eldri borgara.
Athugið að sætaframboð er takmarkað! Tryggið ykkur sæti tímanlega, og góða skemmtun í Vestmannaeyjum!