Fyrsta prjónakaffi ársins 2026 verður haldið miðvikudaginn 7. janúar. Húsið opnar klukkan 19:00 og klukkan 20:00 hefst kynning á smáforriti sem hjálpar prjónurum að aðlaga uppskriftir að sinni stærð.
Þórey Rúnarsdóttir er með bakgrunn í hugbúnaðarþróun og Marta Schluneger er með bakgrunn í markaðsmálum. Báðar eru þær prjónarar sem fannst eitthvað vanta á markaðinn til þess að hjálpa prjónurum að hanna eða sérsníða uppskriftir fyrir sig. Hugmyndin að Flík kom til í frumkvöðlakeppninni Gullegginu í janúar árið 2023. Síðan þá hafa þær gefið út eitt smáforrit og tryggt sér styrk úr Tækniþróunarsjóði sem hjálpaði þeim að ráða einn starfsmann til þess að halda þróuninni áfram og gefa út vefútgáfu árið 2026.
Smáforritið er fyrir iPhone og kom það út í janúar á þessu ári. Það hjálpar prjónurum að breyta uppskriftum svo flíkurnar passi alveg örugglega. Hægt er að finna út hvaða stærð í uppskrift muni passa þegar notuð er önnur prjónfesta, hversu margar lykkjur þarf að fitja upp frá grunni og hvenær þarf að framkvæma útaukningar og úrtökur. Prjónarar geta haldið utan um alla útreikninga með því að vista þá niður á verkefni þar sem einnig er hægt að vista myndir og glósur.
Prjónakaffinefndin tekur vel á móti gestum með heitt á könnunni og súkkulaðimola. Verið öll hjartanlega velkomin í Heimilisiðnaðarfélagið á nýju ári!
