1 Fermetri af Hör

Verkefnið 1 Fermetri af Hör fór vel af stað vorið 2022 og tók fjöldi fólks víðsvegar um landið þátt í því að rækta 1 fermetra af hör (sumir meira!) og hafa nokkrir nú þegar feygt hörinn, brákað hann og spunnið! Verkefnið hófst í Svíþjóð árið 2020 en markmiðið var að kynna þetta umhverfisvæna hráefni fyrir almenningi og hvetja fólk til að rækta hör og spinna, líkt og fólk gerði í Skandinavíu á árum áður. Hér á Íslandi hefur aftur á móti ekki verið mikil ræktun á hör síðan á miðöldum en stórtækir landsmenn með brennandi áhuga á handverki hafa ekki látið það aftra sér frá því að taka þátt í þessu samnorræna verkefni.

Haldnir hafa verið samnorrænir upplýsingafundir á netinu með fyrirlestrum og fróðleik, nú síðast 14. mars 2023. Sá fundur verður brátt gerður aðgengilegur á netinu. Á þessum fundum hafa sérfræðingar frá Norðurlöndunum gefið góð ráð og talað um ferlið frá fræi til þráðar. 

Nú höfum við pantað 3 kíló af hörfræjum frá Svíþjóð sem ætti að duga fyrir núverandi þátttakendur í verkefninu sem og nýliða. Áhugasamir nýliðar eru beðnir um að hafa samband við skrifstofuna á netfanginu [email protected] sem fyrst til að taka frá sinn skammt fyrir sumarið 2023.