Krossaumur Karólínu

Sýningin Karólína vefari opnaði á Árbæjarsafni 15. maí og mun standa yfir í þrjú ár. Í tilefni af sýningunni var efnt til samstarfsverkefnis milli Heimilisiðnaðarfélags Íslands, Láru Magneu Jónsdóttur textílhönnuðar (eiganda Saumakassans) og Borgarsögusafns um framleiðslu á útsaumspakkningum.

Karólína Guðmundsdóttir (1897 – 1981) lærði vefnað í Kaupmannahöfn og rak um áratugaskeið Vefnaðarstofu Karólínu við Ásvallagötu. Þar voru meðal annars ofin áklæði og gluggatjöld fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki. Hjá Karólínu var einnig ofinn ullarjavi til útsaums auk þess sem hún seldi útsaumspakkningar sem nutu mikilla vinsælda. Útsaumuð veggteppi og púðar frá Vefnaðarstofu Karólínu prýddu fjölmörg íslensk heimili um miðbik síðustu aldar. Fyrirmyndir að munstrum sótti Karólína í erlend hannyrðablöð en einnig lét hún teikna munstur sérstaklega fyrir sig.

Lára Magnea hefur valið munstur frá Karólínu og endurhannað. Við hönnunina er tekið mið af þörfum í nútímasamfélagi en útsaumur nýtur mjög vaxandi vinsælda. Bæði þá og nú er tilgangurinn að veita sér ánægjustundir við gefandi sköpun handverks og fá augnabliks hvíld frá amstri dagsins. Þess má til gamans geta að Karólína og Lára Magnea hafa báðar gegnt formannsembættinu í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, sú fyrrnefnda á árunum 1923-1927 og sú síðarnefnda á árunum 2007-2009.

Nánar um sýninguna á Árbæjarsafni hér.