Handverksbúðir fyrir 16-22 ára í Danmörku

Dagana 30. júní - 4. júlí 2021 verða Norrænar handverksbúðir fyrir ungt fólk á aldrinum 16-22 ára í Skjern í Danmörku.

Handverksbúðirnar eru einstakt tækifæri fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á handverki. Þátttaka í búðunum sjálfum kostar 55 € (um 8.500 kr. miðað við gengi evru nú) en sá kostnaður er greiddur við skráningu. Innifalið í þátttökugjaldi er fullt fæði og húsnæði ásamt námskeiðsgjöldum. Auk þátttökugjalds er kostnaður við ferðir, þ.e. flug til Kaupmannahafnar + lest til Skjern. Hver þátttakandi fær 200 € ferðastyrk frá Nordisk kulturfond og er því gert ráð fyrir að ferðakostnaður sé í kringum 55.000 kr. Aðeins eru 9 pláss í boði - SKRÁNING FER FRAM HÉR.

Þátttakendur velja eitt aðalnámskeið (og einn vara valkost) sem varir í tvo daga. Að auki eru sameiginlegar smiðjur, partýkvöld, skoðunarferð o.fl. Námskeiðin sem boðið er upp á eru eldsmíði, trérennismíði, spírala skreytingar, himmeli óróar, blúnduprjón, textíl endursköpun og fataviðgerðir. Sjá stutta kynningu á námskeiðum og kennurum HÉR.

Fararstjóri íslenska hópsins er Ragnheiður Valgerður Sigtryggsdóttir. Hún var einnig farastjóri í samskonar ferð sumarið 2018 þegar 8 ungmenni frá Íslandi tóku þátt í frábærri upplifun í Noregi. Kennari fyrir Íslands hönd er Snæfríður Jóhannsdóttir sem kennir prjón. Nánari upplýsingar um handverksbúðirnar veitir skrifstofa HFÍ í síma 551 5500 eða Ragnheiður Valgerður:  ragnheidurvalgerdur@gmail.com 

Handverksbúðirnar eru skipulagðar af Norrænum samtökum heimilisiðnaðarfélaga (Nordens Husflidsforbund). Í búðunum gefst frábært tækifæri til að kynnast jafnöldrum frá hinum Norðurlöndunum með sömu áhugamál.