Þjóðbúningadagur Þjóðminjasafns Íslands og Heimilisiðnaðarfélags Íslands

Mynd: Noregs Ungdomslag/ Anne Marte Før
Mynd: Noregs Ungdomslag/ Anne Marte Før
Laugardaginn 6. september verður Þjóðbúningadagur Þjóðminjasafns Íslands og Heimilisiðnaðarfélags Íslands haldinn hátíðlegur. Við hvetjum ykkur öll að mæta á þjóðbúning ykkar þjóðar og fagna með okkur!
 
Í tilefni af því að norsk þjóðbúningahefð var skráð á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns í desember síðastliðnum fáum við til okkar góðan gest frá Noregi í boði norska sendiráðsins á Íslandi. Sagnfræðingurinn Mette Vårdal mun halda fyrirlestur um norska þjóðbúningahefð og skráningu hefðarinnar á lista UNESCO.
 
Þjóðminjasafn Íslands mun bjóða upp á leiðsögn um grunnsýningu safnsins þar sem farið verður yfir þróun íslenska þjóðbúningsins. Safnið býður þjóðbúningaklæddum gestum frítt inn á safnið og alla viðburði þennan dag.
Að lokum munum við stíga dans með Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, en þjóðdansafélög á Norðurlöndunum eiga stóran þátt í því að þjóðbúningahefðir landanna hafa varðveist.
 
Dagskráin hefst með fyrirlestri Mette Vårdal klukkan 13:00 og stendur til klukkan 16:00. Myndakassi verður opinn gestum og gangandi frá 12-17 og að sjálfsögðu verður kaffihúsið og safnverslun opin þennan dag.
 
Verið hjartanlega velkomin að fagna með okkur, við hlökkum vil að sjá ykkur sem flest á þjóðbúningi laugardaginn 6. september!