Til minningar um Heiði Vigfúsdóttur

Ljósmyndari: Heiða Helgadóttir/Fréttablaðið
Ljósmyndari: Heiða Helgadóttir/Fréttablaðið

Heiður Vigfúsdóttir fæddist 15. desember 1938 og sagði stundum að hún hefði fæðst inn í Heimilisiðnaðarfélagið. Móðir hennar, Sigrún Stefánsdóttir (1898-1986), var fyrsti framkvæmdastjóri Íslensks heimilisiðnaðar, verslunar sem Heimilisiðnaðarfélagið stofnaði árið 1951. Einnig sat Sigrún lengi í stjórn félagsins og átti þar hugmyndina að ársritinu Hug og hönd sem Heiður átti eftir að stýra um árabil.

Heiður þekkti því Heimilisiðnaðarfélag Íslands allt frá barnæsku. Hún varð formaður félagsins árið 1994, á erfiðum tímum þegar rekstur verslunarinnar var þungur og húsnæði þess að Laufásvegi 2 þarfnaðist viðhalds. Verkefnið var ærið og allt unnið í sjálfboðavinnu. Svo fór að Heiður tók sér launalaust ársleyfi frá kennslu til að geta helgað sig starfi fyrir Heimilisiðnaðarfélagið og með röggsemi og festu tókst henni að forða félaginu frá gjaldþroti og byggja það aftur upp eftir harðindaár.

Um síðustu aldamót fékk Heimilisiðnaðarfélagið rausnarlegan fjárstyrk frá ríkisstjórn Íslands. Stjórn HFÍ, undir formennsku Heiðar, ákvað að veita styrknum að stórum hluta í rannsóknir á faldbúningnum í þeim tilgangi að félagið gæti boðið upp á námskeið í gerð hans. Heiður tók fullan þátt í vinnu- og rannsóknarhópnum Faldafeyki og blómstursaumaði bekki í pils og svuntur faldbúnings sem félagið á. Ekki er vafi að með starfi Heimilisiðnaðarfélagsins var gamli, og nær gleymdi, íslenski faldbúningurinn endurreistur.

Heimilisiðnaðarfélagið á Heiði margt að þakka en því miður hefur heilsa hennar hin síðari ár ekki leyft að hún gæti fylgst með framgangi þess, hvernig það dafnar í góðu húsnæði, handverki og heimilisiðnaði haldið á lofti og sífellt fleiri konur koma sér upp hinum forna og fagra íslenska faldbúningi.

 

Fyrir hönd Heimilisiðnaðarfélags Íslands,

Kristín Vala Breiðfjörð, formaður

Sigrún Helgadóttir, formaður 2003-2007