Til minningar um Philippe Ricart

Philippe Ricart fæddist árið 1952 og lést í Reykjavík 26. júlí 2021. Philippe hóf að kenna við skóla Heimilisiðnaðarfélagsins árið 1995 og kenndi þar í áratugi námskeið í myndvefnaði, spjaldvefnaði, leðursaumi og tálgun ýsubeina. Hann var afar traustur og góður kennari, lét sér annt um nemendur sína og var einstaklega ljúfur maður með skemmtilegan húmor. Philippe var einstaklega fær handverksmaður og margir eru svo lánsamir að eiga vandaða og fallega listmuni eftir hann eins og spjaldofin bókamerki, lyklakippur og fugla úr ýsubeinum. Áhugi Philippe á fuglum og íslenskri náttúru kom sterkt fram í verkum hans og má í því sambandi nefna hönnun hans á útsaumspakkningum með myndum af íslenskum fuglum en þeim fylgdi band sem hann jurtalitaði. Philippe hlaut margar viðurkenningar á sínum ferli, hann var bæjarlistamaður Akraness árið 1996 -1997 og hlaut Skúlaverðlaunin árið 2015. Hann tók margsinnis þátt í sýningum Handverks og hönnunar. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Jóhönnu eiginkonu hans, Mörthu dóttur hans og fjölskyldu. Philippe, okkar kæra vin, kveðjum við með virðingu og einlægu þakklæti fyrir ómetanlegt framlag hans í þágu Heimilisiðnaðarfélagsins. 

Solveig Theodórsdóttir