HANDLÍNA
Kennarar: Katrín Jóhannesdóttir og Kristín Bjarnadóttir
Lengd námskeiðs: 3 skipti – 9 klst.
Tími: 9. September kl. 14.00 fyrirlestur um Handlínur á Þjóðminjasafni Íslands
16., og 23. Og 30. September – laugardagar kl. 10-13.
Verð: 32.900kr. (29.610kr. fyrir félagsmenn) innifalið er fyrirlestur á Þjóðminjasafni og efni í prufur.
Handlínur voru klútar sem konur báru við faldbúninga sína, fyrst og fremst þegar gengið var til kirkju. Á söfnum má finna handlínur frá 17. og 18. öld úr hör eða lérefti, ýmist saumaðar út með hvítu en einnig í lit. Kristín Bjarnadóttir hefur rannsakað handlínur um árabil, teiknað upp munstur þeirra og endurgert.
Námskeiðið hefst með fyrirlestri Kristínar á Þjóðminjasafninu um handlínur, þar sem sýndar verða handlínur úr safneigninni ásamt endurgerðum Kristínar. Nemendur munu fræðast um sögu þessa forvitnilega fylgihluts og hvaða hlutverki hann þjónaði.
Þann 16. september hefst svo kennsla í útsaum þar sem nemendur munu læra mismunandi spor sem þekkjast á handlínum, s.s. holbeinssaum, krosssaum, flatsaum, raksprang og herpisaum. Markmiðið er að nemendur læri allar útsaumsgerðirnar og saumi út í prufustykki, og geti í framhaldinu hafist handa við að sauma út í sína eigin handlínu með þeirri aðferð sem þeim hugnast best.
Eftir að námskeiðinu líkur er stefnt á að vera með reglulega hittinga án kennara þar sem nemendur geti sýnt árangur og fengið ráðleggingar frá samnemendum.
Fyrirlestur Kristínar Bjarnadóttur verður haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 9. september klukkan 14:00. Fyrirlesturinn er opinn öllum en aðgangseyrir er innifalin í námskeiðisgjaldi og mælum við með því að nemendur mæti á fyrirlestur Kristínar, til að öðlast skilning á sögu handlína.