Húfur

BáturBátur

Höfuðfat sem litlar stúlkur notuðu við upphluti á 20. öld, bátlaga, oft skrautlegt og bundið undir höku.

HöfuðfötHöfuðföt (skotthúfa)

Höfuðföt fylgja öllum íslenskum búningum.

KarlmannshúfaKarlmannshúfa

Húfur karla eru prjónaðar, röndóttar ullarhúfur með litlum skúf.

SkotthúfaSkotthúfa

Skotthúfur hafa verið notaðar um aldir á Íslandi. Allar enda þær í skotti efst, við skottið er festur skúfur og hólkur hafður á mótum skotts og skúfs. Á 18. og 19. öld var húfan djúp, prjónuð úr svörtu, stundum svarbláu, fínu ullarbandi og með skúf úr ullarbandi. Á síðari hluta 19. aldar voru notaðar grunnar, prjónaðar skotthúfur, oft mjög litlar og með löngum silkiskúf. Við 20. aldar búninga er húfan ýmist prjónuð eða sniðin og saumuð úr svörtu flaueli og skúfurinn hafður úr svörtu silki. Húfan er fest við hárið með svörtum títuprjónum eða hárnálum sem ekki eiga að sjást. Stundum er saumaður kambur innan í húfuna að framan eða til hliðar, gengt skúfnum, til að auðvelda festingu við hárið. Grunn skotthúfa er eingöngu notuð við 20. aldar búninga, en djúp skotthúfa er notuð við faldbúninga og elstu gerðir peysufata og upphluts.

SkarðhúfaSkarðhúfa

Húfur sem stúlkubörn báru við faldbúninga yfir litlu trafi og bundnar undir kverk. Húfurnar gátu verið úr silki, bryddaðar og mikið skreyttar og með silfurhnöppum í kollinn. Þegar konur fóru að bera spaðafalda í stað krókfalda breyttust líka húfur stelpnanna og í stað hnappanna í kollinn kom lítill spaði og eftir það voru húfurnar kallaðar spaðahúfur. Ljósmynd úr Földum og skarti/Þorgerður Hlöðversdóttir.

SpaðahúfaSpaðahúfa

Húfa stúlkubarns frá því um 1800. Skreytt húfa, bundin undir kverk, sem tók við af skarðhúfum. Spaðahúfa var með lítinn spaða í kollinn, í líkingu við fald kvenna sem voru að þróast um líkt leyti.