Á afmælisdegi Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst verður mikið um dýrðir á Árbæjarsafni þar sem Heimilisiðnaðarfélag Íslands og blómahönnuðir bjóða upp á blómlega dagskrá! Blómdís og Jóndís blómahönnuðir kenna gestum hönnun og samsetningu blómvanda úr sumarblómum sem ræktuð hafa verið á Árbæjarsafni í sumar. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Grasagarðs Reykjavíkur og Borgarsögusafns.
Þá munu félagar úr Heimilisiðnaðarfélaginu sýna handverk og aldrei að vita nema þar verði til nokkur blóm! Blómstursaumur er sá saumur sem notaður er til að skreyta pils og samfellur faldbúninganna og í Hansen húsi verður saumað eftir blómamunstrum Sigurðar málara, sem einmitt bjó um tíma í Hansen húsi. Blómin spretta fram á baldýruðum upphlutsborðum og ef til vill má sjá orkeruð blóm!
Verið hjartanlega velkomin á Árbæjarsafn 18. ágúst!