Prjónakaffi 3. október: ÍSTEX kynnir nýja bók

Fimmtudagskvöldið 3. október eigum við von á góðum gestum á prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins en ÍSTEX ætlar að koma og kynna nýjustu prjónabók sína, LOPI 44, sem ber heitið Vetrartíð. Bókin er stútfull af uppskriftum eftir Védísi Jónsdóttur, aðal prjónahönnuð ÍSTEX og má ætla það út frá titlinum að í bókinni verði að finna fjölmargar hlýlegar flíkur sem gott er að prjóna fyrir kuldann í vetur. Bókin er ekki komin út en gestir á prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins verða fyrstir til að fá að sjá uppskriftirnar í bókinni. Vonast er til þess að bókin verði komin úr prentsmiðju fyrir prjónakaffið 3. október!

Húsið opnar klukkan 19:00 og kynningin hefst klukkan 20:00. Prjónakaffinefndin verður að sjálfsögðu á staðnum með sínar margrómuðu veitingar sem seldar eru á vægu verði til styrktar Heimilisiðnaðarfélaginu. 

Verið öll hjartanlega velkomin í Heimilisiðnaðarfélagið Nethyl 2e á prjónakaffi fimmtudagskvöldið 3. október!