Prjónakaffi 4. september: útsaumur í prjón

Ný prjónakaffinefnd hefur tekið til starfa hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og við bjóðum Önnu Sigríði Eyjólfsdóttur, Helgu Ólafsdóttur, Monicu Fidalgo og Ragnheiði Sigtryggsdóttur hjartanlega velkomnar!

Fyrsta prjónakaffi haustsins verður haldið fimmtudagskvöldið 4. september. Húsið opnar klukkan 19:00 en klukkan 20:00 hefst kynning Önnu Sigríðar Jónsdóttur á útsaumi í prjón. Anna Sigga sækir sinn innblástur í ömmu sína og nöfnu úr Skagafirði og nýtur þess að setja æskuna niður í spor eða lykkju. Ef til vill munu gestir kvöldsins fá innblástur að nýjum og spennandi verkefnum þar sem útsaumur og prjón sameinast!

Prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins verður nú með breyttu sniði. Við verðum áfram með spennandi kynningar á prjóni og öðru handverki, en munum aðeins bjóða upp á kaffi, gos og súkkulaði. Fyrsta og síðasta prjónakaffi ársins 2025 verða í sal Heimilisiðnaðarfélagsins að Nethyl 2e, en við munum auglýsa skemmtilega vettvangsferð síðar í haust þar sem prjónakaffið ætlar að skella sér í heimsókn!

Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest á fyrsta prjónakaffi haustsins 4. september með Önnu Siggu og fallega útsaumnum hennar!