Prjónakaffi á veraldrarvefnum - Saumaklúbbur Karólínu (I)

SAUMAKLÚBBUR KARÓLÍNU - prjónakaffi í streymi 8. apríl kl 20.00

Saumaklúbbur Karólínu (I) snýst um útsaum á munstrum frá Karólínu Guðmundsdóttur. Þetta fyrra kvöld verður forsaga sýningarinnar á Árbæjarsafni rakin og sagt frá verkefninu við að endurvekja munstur Karólínu. Sýndar verða þær fjölbreyttu og fallegu pakkningar sem á boðstólum eru. Hvar á að byrja? Hvernig er best að fara að? Auk þess sem ýmis góð ráð við útsauminn fá að fljóta með.

 Á vormánuðum verður opnuð sýning á verkum Karólínu Guðmundsdóttur vefara í Kornhlöðuhúsinu á Árbæjarsafni. Karólína lærði ung vefnað í Kaupmannahöfn og rak um áratugaskeið Vefnaðarstofu við Ásvallagötu í Reykjavík. Þar var meðal annars um áratugaskeið framleiddur ofinn ullarjafi í ýmsum litum til útsaums. Karólína seldi einnig útsaumspakkningar sem samanstóðu af jafa, munstri með skýringum og útsaumsgarni. Útsaumspakkningar Karólínu nutu mikilla vinsælda, veggteppi og púðar ættaðir frá henni prýddu mörg íslensk heimili.

Í tilefni af sýningunni um Karólínu hefur verið valin fjöldi munstra frá Karólínu og þau sett í útsaumspakkningar. Verkefnið er samstarf HFÍ og Árbæjarsafns en Lára Magnea Jónsdóttir textílhönnuður hefur valið falleg munstur og endurhannað þau í takt við tímann. Þátttakendur geta keypt útsaumspakkningarnar í verslun HFÍ og vefverslun HFÍ fyrir saumaklúbbskvöldin.

Umsjón: Lára Magnea Jónsdóttir & Margrét Valdimarsdóttir

Samstarfsaðili: Borgarsögusafn - Árbæjarsafn