Þjóðbúningaráð

ErmahnapparHlutverk Þjóðbúningaráðs er að varðveita þekkingu á íslenskum búningum og leiðbeina um gerð þeirra.

Þjóðbúningaráð hefur starfað frá upphafi árs 2001 í kjölfar þess að Alþingi samþykkti ályktun um stofnun ráðsins. Þrjú áhugamannafélög tilnefna fulltrúa í Þjóðbúningaráð, þ.e. Heimilisiðnaðarfélag ÍslandsKvenfélagasamband Íslands og Þjóðdansafélag Reykjavíkur, og tvö opinber minjasöfn, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar ráðið.

Hvers vegna Þjóðbúningaráð?

Í árhundruð breyttust föt Íslendinga lítið í samanburði við síbreytilega tískustrauma síðustu aldar í sniðum og efnum. Þótt fregnir bærust af hátísku fyrirfólks Evrópu, og kannski einstaka spjör, klútur eða efnisstrangi, þá voru föt fólks fyrst og fremst heimilisiðnaður. Þau voru unnin frá grunni, að langmestu leyti úr ull og öðru efni sem búið gaf og mótuð af íslenskum aðstæðum. Snið, aðferðir og verkkunnátta gengu frá kynslóð til kynslóðar.

Seint á 19. öld, og í byrjun þeirrar 20., urðu straumhvörf í mörgum skilningi, nútíminn hélt innreið sína. Aukin tækni, sífellt betri samgöngur við útlönd og innflutningur þaðan breyttu flestu, líka klæðnaði fólks. Hinn þúsund ára gamli lifandi menningararfur sem bjó í handverkinu hefði getað glutrast niður á örfáum kynslóðum.

Menningararfur er ekki aðeins gamlir hlutir, geymdir undir gleri, heldur líka verkkunnátta og hefðir. Til að varðveita slík verðmæti þarf að rannsaka handverk, læra vinnubrögð og kenna þau nýjum kynslóðum.

Í Þjóðbúningaráði eru fulltrúar félaga og stofnana sem lengi hafa haft að markmiði að varðveita íslenskt handverk, rannsaka og miðla áfram því sem best er vitað hverju sinni um gerð klæðnaðar Íslendinga fyrri alda, þau föt sem við nú köllum þjóðbúninga.

Aðdragandi að stofnun Þjóðbúningaráðs

 

Árið 1969 hélt Þjóðminjasafn Íslands sýningu á íslenskum kvenbúningum. Að þeirri sýningu komu líka fulltrúar frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Þjóðdansafélagi Reykjavíkur. Í kjölfar sýningarinnar stofnuðu þessir aðilar Samstarfsnefnd um íslenska þjóðbúninga. Markmið nefndarinnar var að viðhalda þekkingu á íslenskum þjóðbúningum, kynna þá og stuðla að notkun þeirra. Nefndin hafði ekki fasta fjárveitingu en fékk styrki frá aðilum og stofnunum til ákveðinna verkefna.

Samstarfsnefndin gaf fljótlega út bæklinga um gerð peysufata og upphluta, síðar einnig myndband og nýjan bækling um fjórar gerðir íslenskra búninga, peysuföt, upphlut, skautbúning og kyrtil. Á níunda áratugnum var í nokkur ár starfrækt þjónustudeild sem leiðbeindi um gerð íslenskra búninga í húsakynnum Heimilisiðnaðarfélagsins og oft voru þar sýningar á íslenskum búningum. 

Samstarfsnefndin tók fljótlega þátt í norrænu samstarfi á þessu sviði og hafa þau samskipti bæði aukið þekkingu um norræna búninga, snið og saumatækni og gert auðveldara en ella að útvega viðeigandi efni í búninga.

Haustið 1998 var skipuð ný samstarfsnefnd sömu aðila og áður að viðbættum fulltrúa Minjasafns Reykjavíkur. Nefndin kynnti starf sitt og hugmyndir um framtíðarverkefni fyrir menntamálanefnd alþingis. Í kjölfar þess var lögð fram þingsályktunartillaga um Þjóðbúningaráð sem alþingi samþykkti árið  1999.